Drifkraftar nýsköpunar eru knúnir áfram með klasasamstarfi
Í liðinni viku stóðum við fyrir viðburðinum Klasar sem drifkraftur nýsköpunar (e. Clusters as the Driving Force for Innovation) þar sem kastljósinu var beint að mikilvægi samstarfs og leiða til að efla nýsköpun og framþróun. Sérstakur gestur fundarins var Glenda Napier, framkvæmdastjóri danska Orkuklasans. Glenda kom sérstaklega til landsins til að deila reynslu sinni við uppbyggingu danska Orkuklasans og fór yfir hlutverki hans í aðgerðum Dana þegar kemur að loftlagsaðgerðum og orkuskiptum. Vel var mætt á viðburðinn sem fór fram í Húsi Orkuveitu Reykjavíkur og sköpuðust líflegar umræður.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ávarpaði fundinn í upphafi. Í ávarpinu minnti á að nauðsyn er móðir allra uppfinninga. Brýn þörf væri á nýjum lausnum í orkumálum vegna óvissu í Evrópu vegna orkuöryggis og svo vegna loftslagsbreytinga. Benti hann á að uppbygging Íslendinga til að nýta jarðvarma hefðu gert Íslendingum kleift að skipta út innfluttri óendurnýjanlegri orku yfir í innlenda og endurnýjanlega orku. Þetta skapaði þjóðinni ávinning sem næmi um 7% af árlegri landsframleiðslu þjóðarinnar. Framkvæmdirnar hefðu einnig bætt þjóðaröryggi sem komi vel fram í því að um um þessar mundir væri þjóðin að miklu leyti varin fyrir áhrifum stríðsátaka í Evrópu sem meðal annars hefði valdið verðhækkunum á olíu og verðbólgu. Þá væru innviðir í kringum endurnýjanlega orku mikilvægir til að gera okkur kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar um loftslagsmarkmið og orkuskipti.
Íslendinga ættu góð dæmi um hvernig klasar efldu nýsköpun, gæfu tækifæri á nálgunum nýjum leiðum í hringrásarhagkerfinu og bættu þar með nýtingu þar sem samvinna gæfi fyrirtækjum kost á því að skapa verðmæti þar sem úrgangur af starfsemi fyrirtækis gæti verið verðmætt hráefni fyrir annað. Klasar tengdu þar með saman ólíkar atvinnugreinar og strauma náttúruauðlinda og sköpuðu þar með ný störf sem og aukið rannsóknar- og þróunarstarf. Nýsköpun á sviði orkumála skipti höfuðmáli í viðleitni okkar til að berjast gegn loftslagsbreytingum og þar sem klasar væru drifkraftur nýsköpunar gegndu þeir einkar mikilvægu hlutverki.
Líflegar umræður sköpuðust í kringum fyrirlestur Glendu Napier, framkvæmdastjóra Orkuklasa Danmerkur en þar í landi hafa stjórnvöld beitt sér fyrir klasasamstarfi undanfarin ár í því skyni að að auka nýsköpun og sókn danskra fyrirtækja. Meðal þess sem Glenda fór yfir var mikilvægi þess að klasar finndu lausnir á ágreiningsefnum. Því væri mikilvægt að skýra stefna væri um það hvernig klasinn forgangsraðaði fjármunum til verkefna og hvernig áherslur og leiðir væru skilgreindar í nýsköpun með það fyrir augum að auka skilvirkni og samlegð í klasasamstarfi á landsvísu og forgangsraða fjármunum til klasa þar sem þekking og geta er sannarlega til staðar.
Danir tóku upp opinbera klasastefnu árið 2013 og er klasastefnan er ein af lykilstoðum nýsköpunarstefnu þeirra. Klösunum er skipt upp í héraðsklasa, landsklasa og alþjóðlega klasa en eins og Glenda segir þá þarf að vera „local til að vera global“ eða í návígi við uppsprettu verðmætanna til að skapa alþjóðlegar tengingar.
„Markmið okkar er að viðhalda og styrkja hlut Danmerkur sem fyrirmyndar í þróun grænnar nýsköpunnar í alþjóðlegum lausnum í orkumálum,“ sagði Glenda. Stefna danskra stjórnvalda væri að vera búin að draga úr úr losun gróðurhúsalofttegunda um 70 prósent miðað við það sem var árið 1990, til þess að svo mætti verða þyrfti nýsköpun. Loftslagsmarkmið Danmerkur verði því ekki aðskilin Orkuklasa Danmerkur.
Á fundinum sköpuðust einnig líflegar samræður um samstarf ólíkra greina en bent hefur verið á að mikil tækifæri séu á Íslandi til aukins ráðstefnuhalds í kringum orkumál. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaklasans á Íslandi og stjórnarmaður í TCI Network – alþjóðlegu klasasamstökunum, fór yfir mikilvægi samvinnu á milli greina og fjármögnunar á klösunum. Rétt eins og Glenda fór yfir mikilvægi þess að klasar fyndu sameiginlegar lausnir fyrir aðila innan klasans. Þeir aðilar sem tækju þátt í klasasamstarfi yrðu að gera sér grein fyrir því að til þess að ávaxta hlut sinn í klasanum yrði að leggja inn verðmæti á móti.
Doktor Eyþór Ívar Jónsson, hjá þekkingarfyrirtækinu Academias, fór í lokin yfir mikilvægi þekkingarmiðlunar til almennings og stýrði umræðum þar sem Sigurður Markússon, forstöðumaður nýsköpunardeildar á Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviði Landsvirkjunar, sat einnig fyrir svörum. Í máli hans kom meðal annars fram mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu sem til að mynda væri hægt að virkja í gegnum samvinnu klasa.