Nýr framkvæmdastjóri Orkuklasans

News

Posted On: April 1, 2022

Nýr framkvæmdastjóri Orkuklasans

Rósbjörg Jónsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri íslenska Orkuklasans og mun hún taka við af Alexander Richter sem hverfur til annarra starfa nú um mánaðarmótin.

Framkvæmdastjóri Orkuklasans leiðir samstarfsvettanginn og þau verkefni sem hann vinnur að með það að markmiði að efla og leiða aðildarfélaga vettvangsins að aukinni samkeppnishæfni og stuðla að aukinni nýsköpun á sviðinu.

Rósbjörg er viðskiptafræðingur að mennt, með sérhæfingu á sviði samkeppnishæfnigreininga, klasastjórnunar og samfélagslegrar ábyrgðar. Rósbjörg hefur víðtæka reynslu á sviði klasastjórnunar og kortlagningar klasa. Rósbjörg er jafnframt fulltrúi SPI á Íslandi og mun vera það áfram. Rósbjörg hefur víðtæka og árangursríka reynslu úr íslensku atvinnulífi og á undanförnum árum hefur Rósbjörg starfað sem sjálfstæður ráðgjafi.

Orkuklasinn er samstarfsvettvangur fjölda aðila sem starfa á sviði orkuiðnaðar og tengdra atvinnugreina og hefur verið starfandi um árabil. Starfsemi íslenska Orkuklasans hefur sjaldan ef nokkurn tímann verið jafn mikilvæg enda klasasamstarf birtingarmynd nýsköpunar og þróunar þar sem heildarhagsmunir eru hafðir að leiðarljósi. Klasasamstarf er talið ein áhrifaríkasta leiðin til að knýja áfram framþróun og aukna verðmætasköpun samfélaga og því viljum við sem að þessum vettvangi stöndum leggja okkar af mörkum þegar við tökumst á við áskoranir framtíðarinnar.

“Ég brenn fyrir þessa hugmyndafræði og hlakka gríðalega til samstastarfsins og þess að vinna með þessum öfluga hópi fólks að góðum verkefnum. Það eru spennandi tímar á sviðinu og mikilvægt að virkja heildina og skapa tækifæri þvert á greinar með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Að vera þessi brúarsmiður og skapa ný tengsl, leiðir og tækifæri fyrir félagana er mikil áskorun og gríðarlega mikilvægt til að efla enn frekar samkeppnishæfni í íslensku samfélagi. Orkumálin eru nefnilega drifkraftur alls” segir Rósbjörg.

Árni Magnússon, stjórnarformaður Orkuklasans segir í tilefni ráðningarinnar; „Við hjá Orkuklasanum þökkum Alexander Richter samstarfið og óskum honum góðs gengis á nýjum vettvangi. Að sama skapi erum við afar ánægð með að hafa fengið Rósbjörgu til starfa með okkur. Menntun hennar og reynsla, m.a. störf á vettvangi klasasamstarfs, á örugglega eftir að gagnast okkur vel. Það eru áhugaverðir tímar á sviði orkumála og ég er sannfærður um að Rósbjörg á eftir að koma mörgum góðum málum fram“.